Enginn veit hvort ágallarnir höfðu áhrif

Hæstiréttur.
Hæstiréttur. mbl.is/GSH

Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttardómari segir að enginn viti hvort ágallar á kosningunni til stjórnlagaþings, sem Hæstiréttur ógilti, höfðu áhrif á niðurstöðuna. Þetta kemur fram í viðtali við Jón í þættinum Návígi í Ríkissjónvarpinu í kvöld. Fréttastofa RÚV greindi frá þessu.

„Hvernig mælum við það, hvort að þetta hafi haft áhrif eða ekki. Við dæmum bara eftir lögum,“ sagði Jón Steinar í upptöku úr þættinum sem leikin var í fréttum Ríkissjónvarpsins.  „Það er ekki bara áhrif á niðurstöðuna, það reyndar veit nú kannski enginn um það hver hún hefði orðið, ef þetta hefði verið réttilega gert, heldur er það líka þannig að kosningarnar eiga að vera leynilegar.

Það verður síðan þannig að sumir eru óánægðir og þá höfum við mátt kannski heyra það að við höfum verið vanhæfir til þess að taka þessa ákvörðun. Út um það var gert áður en að ákvörðunin var tekin. Hæstiréttur sendi út bréf 7. janúar til allra, m.a. til þeirra sem höfðu hlotið kosningu á stjórnlagaþing, skýrði frá því hvaða dómarar myndu taka þátt í þessari ákvörðun og gaf ákveðinn frest til þess að gera kröfu um að menn vikju sæti vegna vanhæfis. það komu engin slík krafa,“ sagði Jóns Steinar.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert