Fjölgun dómara eykur ringulreiðina

Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttardómari.
Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttardómari. mbl.is

Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttardómari sagði í þættinum Návígi í Ríkissjónvarpinu í kvöld að álagið á Hæstarétt væri alveg óviðunandi. Sjálfur hafi hann dæmt í 337 dómsmálum í fyrra. Tímabundin fjölgun dómara myndi eingöngu auka ringulreiðina. Menn ættu að einhenda sér í að koma á fót millidómstigi.

Jón Steinar var gestur Þórhalls Gunnarssonar í Návígi, þar sem m.a. var rætt um stóraukinn fjölda mála í Hæstarétti. Sagði Jón Steinar að á fyrsta ári hans sem dómari í Hæstarétti hafi hann dæmt í 180 málum. „Á síðasta ári, 2010, þá dæmdi ég hvorki meira né minna en í 337 dómsmálum,“ sagði hann.

„Það er alveg ljóst að þetta er ástand sem ég tel að sé alveg óviðunandi og fólkið í landinu ætti að átta sig á að gengur ekki. Þetta er allt of mikið álag,“ sagði hann. Jóns Steinar sagði að það sæju það allir, að þegar Hæstiréttur þurfi að dæma í svona mörgum málum þá aukist hættan á því að mönnum verði eitthvað á í dómarastarfinu.

Hann sagði að í starfi sínu sem lögfræðingur í gegnum árin hafi verið mikilvægt að fá tíma til að velta álitamálum fyrir sér. „Ég verð bara að segja að í starfi mínu þarna, undir þessu álagi, þá gefst mér ekki tækifæri til þess að gera þetta. Það verður bara að keyra í að afgreiða mál og svo er næsta mál komið með alveg nýjum álitaefnum, úr allt annarri átt,“ sagði hann.

„Ég held að ef menn hugsa um þetta, þá vilji þjóðin þetta ekki, að þeir dómarar sem eiga að taka endanlegar ákvarðanir í þýðingarmestu málum skuli starfa undir svona álagi,“ sagði Jón Steinar.

Eingöngu þýðingarmestu málin

Hann sagðist vera meðmæltur því að stofnað verði millidómstig. Þýðingarmestu málin, kannski 90-100 á ári, kæmu þá til kasta Hæstaréttar. Með því móti mætti fækka dómurum, t.d. í fimm, sem dæmi þá allir í öllum málum. „Þá erum við búin að búa til raunverulegan Hæstarétt og tryggja að þangað fara bara þau mál sem mestu máli skipta, hafa mest fordæmisgildi eða varða mesta hagsmuni.“

Jón Steinar vék einnig að áformum um fjölgun dómara við Hæstarétt, sem hann sagði að yrði bráðabirgðaráðstöfun. „Ég segi, ringulreiðin sem af þessu leiðir hún bara eykst við þetta. Og þar að auki er þetta til þess fallið að skjóta á frest nauðsynlegum breytingum við að koma á þessu millidómstigi,“ sagði hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert