Framtakssjóður Íslands hafnaði í dag tilboði fjárfestingarfélagsins Triton í versksmiðjurekstur Icelandic Group og er viðræðum lokið. Jafnframt hefur verið ákveðið að selja verksmiðjur Icelandic í Bandaríkjunum og framleiðslustarfsemina í Kína í opnu söluferli.
Að sögn Framtakssjóðs mun Icelandic áfram eiga verksmiðjurnar í Evrópu, sölukerfið um allan heim og skráð vörumerki félagsins.
„Icelandic er gott fyrirtæki og eðlilega mikill áhugi á því. Við tilkynntum í haust að við værum að leita að meðfjárfesti í félaginu og í kjölfarið komu nokkrir aðilar fram. Hugmyndir Triton voru einfaldlega þannig að við töldum rétt að skoða þær ítarlega en endanleg niðurstaða okkar var að hafna tilboði þeirra. Við munum nú einbeita okkur að fjárhagslegri og rekstrarlegri endurskipulagningu félagsins. Við munum selja verksmiðjureksturinn í Bandaríkjunum og framleiðslustarfsemina í Kína og þær eignir verða kynntar fyrir áhugasömum kaupendum í opnu söluferli á næstunni,“ segir Finnbogi Jónsson, framkvæmdastjóri Framtakssjóðs Íslands, í tilkynningu frá sjóðnum.