Hefur ekki áhuga á nefndinni

Frá fundi forustumanna flokkanna í dag.
Frá fundi forustumanna flokkanna í dag. mbl.is/Golli

„Það kom fram af minni hálfu að ég hefði ekki áhuga á þátttöku í nefnd sem hefði það hlutverk að undirbúa nýtt stjórnlagaþing,“ segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. Hann segir Sjálfstæðisflokkinn engu að síður munu tilnefna fulltrúa í nefndina.

„Forsætisráðherra óskaði eftir því að fá tilnefningu í nefnd sem ætti að meta næstu skref og að það væri allt undir varðandi framhaldið. Það er sjálfsagt að fylgjast með því starfi. En ég hef aldrei verið jafn sannfærður eins og eftir þetta klúður sem varð með kosningarnar að Alþingi verði að fara að byrja vinnuna,“ segir Bjarni og á við endurskoðun stjórnarskrárinnar.

„Þetta er í sjálfu sér engin niðurstaða. Þetta er vinna sem forsætisráðherra vill láta vinna til að meta kostina í stöðunni. Ég hef talað mjög skýrt um það hvað ég telji vera besta kostinn. Ég segi mig ekki frá umræðunni um næstu skref þó ég sé þessarar skoðunar,“ segir Bjarni en besti kosturinn í stöðunni að hans mati er að Alþingi taki við málinu.

„Málið hefur ekki tekið neina stefnu þó að þessi nefnd hafi verið skipuð. Svo mikið er víst.“

Ásamt Bjarna sátu þeir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, og Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, fundinn í stjórnarráðinu með Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra og Steingrími J. Sigfússyni fjármálaráðherra, en til hans var boðað í kjölfar þess að Hæstiréttur ógilti stjórnlagaþingskosningarnar.

„Á þessum fundi ítrekaði ég þá skoðun mína að það hafi aldrei verið látið reyna á það á milli flokkanna í síðustu kosningum hvort að það væri sameiginlegur skilningur á því sem helst þyrfti að skoða í stjórnarskránni og um ákveðnar meginbreytingar sem þyrfti að vinna að.

Þvert á móti hefur það verið sérstakt kappsmál forsætisráðherra að koma á stjórnlagaþingi, sama hvað öðru líður. Það hefur ekkert verið hlustað á það sem fram hefur komið af okkar hálfu, að það sé of mikið gert úr skoðanamun á milli flokkanna um þörfina fyrir breytingar.“

Bjarni segir óákveðið hverjir verði fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í nefndinni en að það muni skýrast næstu daga. Til greina komi að tilefna einstaklinga sem eru utan þingflokks Sjálfstæðisflokksins.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert