„Ef menn ætla að byggja upp gott og heilnæmt viðskiptalíf verða menn að standa almennilega að hlutunum. Ég vona að þetta sé skref í rétta átt,“ segir Magnús Orri Schram, þingmaður Samfylkingarinnar. Hann hefur verið gagnrýninn á viðræður Framtakssjóðs Íslands og fjárfestingarfélagsins Tríton um kaup hinna síðarnefndu á verksmiðjurekstri Icelandic Group. Fallið var frá sölunni í dag.
Finnbogi Jónsson, framkvæmdastjóri Framtakssjóðsins, sagði í samtali við mbl.is í dag að tilboð Tríton hafi ekki verið viðunandi. Til standi að leita tilboða í hluta reksturs Icelandic, í Bandaríkjunum og Asíu, og það verði gert á opinn og gagnsæjan hátt.
Þeir Magnús Orri og Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hafa gagnrýnt Framtakssjóðinn fyrir að hafa ekki haft starfsreglur Vestia að leiðarljósi við sölu Icelandic. Uppleggið hafi átt að vera gagnsæi, en því hafi ekki verið að fagna í þessu tilfelli.
„Ég held að menn hljóti að læra af reynslunni, því þeir urðu fyrir gríðarlega mikilli gagnrýni í þessu ferli öllu saman. Við munum halda þeirri vinnu áfram sem við höfum verið að vinna, að passa upp á að svona gerist ekki,“ segir Magnús Orri.
„Ef Framtakssjóðurinn ætlar að starfa hér áfram, og það á að ríkja traust og friður um hans störf, þá hljóta menn að hafa lært af þessari reynslu, sem þeir hafa öðlast á undanförnum vikum.“