„Það er verið að skoða hvort hægt sé að stofna tvo innistæðutryggingasjóði sem skiptu á milli sín iðgjaldinu. Annar hlutinn yrði notaður til að byggja upp nýtt innistæðutryggingakerfi en hinn til að greiða niður vexti vegna Icesave-samninganna,“ segir Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og nefndarmaður í viðskiptanefnd, um fyrirspurn sem fjárlaganefnd sendi til viðskiptanefndar.
Eygló segir enn á umræðustigi hver upphæðin verður sem iðgjaldið mun afla.
„Þetta myndi þýða að fjármálakerfið mun borga fyrir þann hlut sem fellur á íslenska ríkið vegna Icesave, sem er þá fyrst og fremst vaxtakostnaður. Sá aukakostnaður kemur þá væntanlega fram í vaxtamun eða hagræðingu í rekstri hjá fjármálafyrirtækjunum. Önnur hugmynd er að sækja féð beint með bankaskatti.“
Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, átti frumkvæðið að hugmyndinni. Hún segir að fyrir Alþingi liggi frumvarp um endurreisn Tryggingasjóðs innistæðueigenda (TIF). Skömmu eftir hrun hafi verið um 18 milljarðar kr. í TIF og að síðan hafi bæst um 2 milljarðar við í sjóðinn, vegna framlags bankanna sem hafi verið 0,15% af innistæðum.
Margrét svarar því aðspurð til að óvissa sé um hversu langan tíma það muni taka að gera upp afborganirnar. Í besta falli geti það tekið þrjú til fjögur ár en í versta falli allan þennan áratug. Hún bendir á að með frumvarpi Árna Páls Árnasonar viðskiptaráðherra í nóvember hafi iðgjaldið verið hækkað í 1%. Bankasýsla ríkisins og TIF áætli að það skili allt að 20 milljörðum á ári.
Eygló svarar því til að „almenningur muni greiða vextina af Icesave, hvort sem það verði í gegnum fjármálafyrirtæki eða skatta“.
Rætt hefur verið að fyrstu vaxtagreiðslur skv. nýju samningunum yrðu í besta falli um 26 milljarðar króna.
Margrét segir stjórn tryggingasjóðsins telja hugmyndina raunhæfa en að viðskiptaráðuneytið hafi hins vegar séð annmarka á þessari aðferð.