Lýsir andstöðu við Icesave

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar.
Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar. mbl.is/Ómar

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, lýsir andstöðu við Icesave-samningana í nefndaráliti eftir umfjöllun fjárlaganefndar, sem dreift hefur verið á Alþingi. Frumvarpið um Icesave er á dagskrá Alþingis á morgun.

Þór Saari fer ítarlega yfir málið og málsmeðferð fjárlaganefndar í áliti 1. minnihluta fjárlaganefndar. Hann bendir á að Hreyfingin hafi lagt til í fjárlaganefnd að málið yrði sent til efnahags- og skattanefndar og viðskiptanefndar með ósk um að leitað yrði leiða til að fjármálafyrirtæki landsins tækju þessar greiðslur á sig.

„Rökin fyrir því eru að með því yrði komið inn ákveðinni hugmyndafræði um samábyrgð samtaka í atvinnurekstri, í þessu tilfelli Samtaka fjármálafyrirtækja, sem leiðir til þess að heilar starfsgreinar hefðu hvata til þess að halda í heiðri skynsamlegt verklag. Einnig yrði um ákveðna sáttaleið að ræða en það voru einmitt fjármálafyrirtæki sem báru meginábyrgð á bankahruninu og þótt núverandi fjármálafyrirtæki beri þar ekki öll sök þá bera engu að síður margir núverandi eigenda þeirra og starfsmanna beint eða óbeint ábyrgð á hvernig fór,“ segir í nefndarálitinu.

Þór segir að formaður fjárlaganefndar hafi sagt að fjárlaganefnd muni skoða niðurstöður efnahags- og skattanefndar og viðskiptanefndar þegar málið kemur til fjárlaganefndar milli 2. og 3. umræðu „og ef svo fer að niðurstaðan verði að önnur hvor þeirra leiða sem lagðar eru til verði farin mun 1. minni hluti breyta afstöðu sinni til málsins,“ segir hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert