Sparisjóðurinn í Keflavík afskrifaði tæplega 50 milljóna króna skuld hjá syni þáverandi sparisjóðsstjóra rétt áður en ríkið tók sjóðinn yfir á síðasta ári. Þetta kom fram í fréttum Ríkisútvarpsins og jafnframt, að tæplega 700 milljónir voru afskrifaðar á sama tíma hjá einkahlutafélagi sem hafði verið í eigu sonarins.
Ríkisútvarpið hefur fjallað um málefni Sparisjóðsins í Keflavík að undanförnu og starfslok Geirmundar Kristinssonar, fyrrverandi sparisjóðsstjóra. Í gær kom fram, að í drögum að starfslokasamningi, sem Geirmundur skrifaði sjálfur árið 2009, var gert ráð fyrir að sparisjóðurinn greiddi 300 þúsund króna ferðakostnað vegna afmælis hans og að um 60 milljóna króna skuld sonar hans yrði endurreiknuð og færð yfir í einkahlutafélag sonarins.
Þessi samningsdrög skrifaði Kristján Gunnarsson, formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og þáverandi stjórnarformaður sjóðsins, undir en samningnum var síðar breytt.
Í kvöld kom fram í fréttum Sjónvarpsins, að Sparisjóðurinn í Keflavík lánaði einkahlutafélaginu Fossvogshyl tæpar 700 milljónir króna árið 2007 til að kaupa stofnfjárbréf sjóðsins í Sparisjóði Húnaþings og Stranda og Sparisjóði Vestfjarða. Sverrir Geirmundsson veitti Fossvogshyl forstöðu og var skráður eigandi.
Að sögn Sjónvarpsins tilkynnti Sverrir ríkisskattstjóra úrsögn sína úr stjórn félagsins í júní í fyrra og að það væri að fullu komið í eigu Sparisjóðsins í Keflavík sem varð gjaldþrota tæpum tveimur mánuðum fyrr. Skuld félagsins við sparisjóðinn hefur verið afskrifuð, sem og tæplega 50 milljóna króna persónuleg skuld Sverris við sparisjóðinn.