„Það er auðvitað ljóst að það er verið að skera niður. Það er að tapast heilmikið af sérþekkingu úr bænum og ég harma það og mér finnst það ógæfuspor,“ segir Guðmundur Rúnar Árnason, bæjarstjóri Hafnarfjarðar.
Frá og með deginum í dag hefur St. Jósefsspítali í Hafnarfirði formlega verið sameinaður Landspítala. Hjúkrunarheimilið Sólvangur verður skilið frá spítalanum og rekið sem sjálfstæð stofnun. Gert er ráð fyrir því að allir núverandi starfsmenn St. Jósefsspítala, að frátöldum þeim sem starfa á Sólvangi, verði starfsmenn Landspítala við sameininguna.