Ætlar Ögmundur að sitja áfr

Ólína Þorvarðardóttir og Ögmundur Jónasson á Alþingi á síðasta ári.
Ólína Þorvarðardóttir og Ögmundur Jónasson á Alþingi á síðasta ári. mbl.is/Ómar

Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, gerir á bloggvef sínum að umræðuefni þau ummæli Ögmundar Jónassonar, innanríkisráðherra, í viðtali í Morgunblaðinu í gær að hluti ræðu Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, á fundi Samfylkingarinnar á laugardag bæri hvorki vott um sanngirni né góða dómgreind.

„Á einhverjum tíma – í einhverju siðuðu samfélagi þar sem orð hefðu merkingu – yrði ráðherrann inntur nánar eftir því hvað hann hygðist fyrir í framhaldi af öðrum eins ummælum. Ætlaði hann að starfa áfram undir verkstjórn þess sama forsætisráðherra hvers dómgreindarbresti hann hefði lýst? Ef svarið væri já – ætlaði hann þá að draga orð sín til baka? Ef svarið við síðari spurningunni væri nei – hvernig ætlaði ráðherrann þá að vera maður orða sinna?" spyr Ólína.

Hún segir síðan, að í hrunsamfélagi, þar sem orð hafi skerta merkingu, þar sé þeim ekki fylgt eftir. „Þau eru bara látin vaða eins og púðurskot út í loftið, án ábyrgðar."

Ólína gagnrýnir einnig Lilju Mósesdóttur, þingmann VG, fyrir viðbrögð hennar við ummælum Jóhönnu og segir Lilju veitast að Jóhönnu með tilhæfulausum ásökunum, sem jafna megi við hreint níð.

„Af Jóhönnu Sigurðardóttur mætti Lilja Mósesdóttir margt læra, ef hún hefði snefil af því hugarfari sem þarf til þess að virða og meta framlag þeirra sem eldri eru og reyndari. En það þarf visku til þess að meta framlag þeirra sem gengið hafa grýttar slóðir og rutt brautir. Það þarf visku til þess að virða annað fólk og skilja verðmæti mannlegrar reynslu. Þá visku virðist þingmaðurinn ekki hafa til að bera, ef marka má ummæli hennar. Það er synd, því Lilja er að mörgu leyti vel gefin kona, þó sérlunduð sé og sjálfhverf," segir Ólína.

Bloggvefur Ólínu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert