Ráðstafað á bak við tjöldin?

Kjartan Magnússon ræddi málefni Orkuveitunnar á fundi borgarstjórnar.
Kjartan Magnússon ræddi málefni Orkuveitunnar á fundi borgarstjórnar. mbl.is/Ómar

Kjartan Magnússon, fulltrúi Sjálfstæðisflokks í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur, gagnrýndi harðlega feril ráðningar nýs forstjóra OR í borgarstjórn í dag. Sagði hann þá spurningu vakna hvort tilgangurinn væri að leiða stjórnarmenn að fyrirfram gefinni niðurstöðu og hvort starfinu hafi þegar verið ráðstafað á bak við tjöldin.

Fram kom í máli Kjartans við umræðurnar um málefni Orkuveitunnar í borgarstjórn að hann hefði hug á að óska eftir því að borgarráð hlutist til um að borgarlögmaður eða innri endurskoðandi borgarinnar verði falið að fara yfir ráðningarferlið og skera úr um hvort við það hafi verið fylgt í hvívetna ákvæðum laga og farið eftir leiðbeiningum um góða stjórnarhætti.

Kjartan sagði að frá valdatöku Samfylkingar og Besta flokksins hafi kjörnir fulltrúar flokkanna hvað eftir annað gefið yfirlýsingar á opinberum vettvangi um Orkuveituna, sem hafi verið til þess fallnar að draga úr trúverðugleika fyrirtækisins, og veikja stöðu þess í yfirstandandi viðræðum við banka og aðrar lánastofnanir um endurfjármögnun lána.  „Annað hvort hefur fyrirtækið beinlínis verið talað niður eða ummæli látin falla, sem líkleg eru til þess að skapa deilur og óvissu um framtíð þess eða rýra trúverðugleika þess með öðrum hætti,“ sagði Kjartan.

Stjórnarformaður Orkuveitunnar haldi nú uppteknum hætti og kjósi að velja viðkvæman tíma og þá aðferð að hefja umræður um breytt rekstrarform Orkuveitunnar og hugsanlega einkavæðingu á síðum Morgunblaðsins. Yfirlýsingar hans skapi óvissu um fyrirtækið á viðkvæmum tímum og dragi úr getu þess til að takast á við aðsteðjandi erfiðleika.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert