Rannsókn Evrópuþings á beitingu hryðjuverkalaga hætt

Hús Evrópuráðsins í Strassborg.
Hús Evrópuráðsins í Strassborg. mbl.is/GSH

Lilja Mósesdóttir, þingmaður Vinstri grænna, skýrði frá því á Alþingi í dag, að laga og mannréttindanefnd Evrópuráðsþingsins hefði ákveðið að ljúka ekki skýrslu um það hvort réttmætt hafi verið af breskum stjórnvöldum að beita hryðjuverkalögum til að frysta eignir Landsbankans.

Lilja er formaður Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins en Íslandsdeildin  fór fram á það í janúar 2009 að Evrópuráðið skoðaði hugsanleg álitamál í tengslum við beitingu hryðjuverkalaga gegn íslenskum hagsmunum í Bretlandi.

Lilja sagði að málinu hefði verið vísað til laga og mannréttindanefndar Evrópuráðsþingsins og finnskur þingmaður var útnefndur skýrsluhöfundur. Nú hafi nefndin ákveðið að ljúka ekki gerð skýrslunnar, m.a. vegna þess að efasemdir voru um að æskilegt væri að Evrópuráðsþingið tæki afstöðu sem kynni að verða nýtt í dómsmálum í tengslum við fall Landsbankans.

Þá hefði nefndin einnig komist að þeirri niðurstöðu, að gildissvið bresku hryðjuverkalaganna sé væntanlega nógu vítt til að frysting eigna Landsbankans félli innan þess. Til greina kæmi hins vegar að leggja mat á efnahagslegar afleiðingar þess fyrir Ísland, að lögunum var beitt. Sagði Lilja að Íslandsdeildin væri nú að skoða það mál. 

Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að  Evrópuráðið, sem væri þekkt fyrir mannréttindabaráttu, teldi ekki að grundvöllur væri til að halda þessari rannsókn áfram. Þetta benti til þess, að Íslendingar hefðu reynt að grípa það hálmstrá í vandræðum sínum, að veifa frekar röngu tré en aungu. „Við ættum að setjast niður og skoða og vinna í okkar eigin málum frekar en að þenja okkur með belging sem ekki gerir neinum gagn," sagði Mörður.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert