Skyldur höfuðborgar verði skilgreindar

Úr miðborg Reykjavíkur.
Úr miðborg Reykjavíkur. mbl.is/Kristinn

Fimm þingmenn Samfylkingarinnar vilja, að Alþingi feli forsætisráðherra að ganga til viðræðna við borgarstjórann í Reykjavík um samning þar sem fram komi skyldur og réttindi Reykjavíkurborgar sem höfuðborgar Íslands.

Í greinargerð með þingsályktunartillögunni, sem Mörður Árnason er fyrsti flutningsmaður að, segir að  í stjórnarskrá Íslands sé höfuðborgar að engu getið þótt kveðið sé á um að Alþingi komi „jafnaðarlega“ saman í Reykjavík, að forseti Íslands hafi aðsetur „í Reykjavík eða nágrenni“ og að stjórnarráðið sé í Reykjavík. Engin lög fjalli um höfuðborg Íslands eða höfuðstað, þótt það orð komi fyrir í lagasafninu.    

„Allajafna er við það miðað um höfuðborg að hún sé aðsetur æðsta valds í ríkinu og miðstöð stjórnsýslu. Skyldur höfuðborgarinnar sem sveitarfélags eru því víðtækari en annarra sveita ríkisins þar sem íbúar hennar og leiðtogar þeirra verða í starfsháttum og skipulagi að taka tillit til þjónustuhlutverks borgarinnar við alla landsmenn. Réttindi verður höfuðborgin að hafa á móti, þar á meðal þau að samráð sé haft við stjórnendur hennar um þær ákvarðanir ríkisstjórnarinnar og þings sem snerta mikilvæga hagsmuni borgarbúa, svo sem atvinnufæri, skipulag og yfirbragð," segir m.a. í greinargerðinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka