Fundi forystumanna flokkanna um viðbrögð við ákvörðun Hæstaréttar að ógilda kosningarnar til stjórnlagaþings, er nýlokið. Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra vonar að fljótlega muni skýrast í hvaða farveg málið fari.
„Þessi fundur fór fram í mjög góðum anda og ég vona að það skýrist fljótlega í framhaldinu í hvaða farveg málið verður sett en það er á hendi forsætisráðherra að halda utan um það,“ sagði Steingrímur.
Hann sagði óvíst að ástæða væri til að funda aftur alveg á næstunni. „Ég held að það hafi stefnt í að málin færu í tiltekinn farveg,“ sagði hann en vísaði til þess að framhald málsins væri í höndum forsætisráðherra, sem myndi greina nánar frá því.