Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, segist á vef sínum vera sammála Þorsteini Pálssyni, sem einnig er fyrrverandi dómsmálaráðherra, um að Ögmundur Jónasson eigi að segja af sér embætti innanríkisráðherra eftir að Hæstiréttur ákvað að kosningar til stjórnlagaþings væru ógildar.
„Ef slíkur atburður hefði gerst á minni vakt í dómsmálaráðuneytinu, hefði ég tekið pokann minn. Ég tala nú ekki um ef ég hefði setið í ríkisstjórn sem strengdi þess heit eftir að rannsóknarskýrslan um bankahrunið birtist að hún ætlaði gera bragarbót við framkvæmd á lögum og stjórnsýslureglum," segir Björn á vef sínum.