Tóku tilboði sem er 60% af kostnaðarmati

Stéttarfélagið Efling gagnrýnir að Landspítalinn skuli hafa tekið tilboði um ræstingu á Landspítala sem er 60% af kostnaðarmati við ræstingar á spítalanum. Breytingarnar leiði til þess að 28 manns sem starfar við ræstingar á spítalanum hafi fengið uppsagnarbréf.

„ Á undanförnum misserum hefur LSH tekið ákvarðanir þar sem útboðsmarkaður er notaður til að knýja launakostnað niður og greinilegt að launum og réttindum starfsmanna má fórna fyrir það. Efling-stéttarfélag bendir á að þessi ákvörðun LSH gengur þvert á yfirlýsingar velferðar- og heilbrigðisráðherra Guðbjartar Hannessonar um að það þurfi að hækka launin í landinu,“ segir í frétt frá Eflingu.

„Það eru 28 manns sem starfa við ræstingar á Landspítalanum við Hringbraut  sem nú hefur verið sagt upp störfum og verkefnið sett í hendurnar á ræstingafyrirtæki fyrir greiðslu sem er einungis 60% af áætluðu kostnaðarmati. Það er alveg ljóst af útboðsgögnum að ekkert er slegið af gæðakröfum enda um stærsta sjúkrahús landsins að ræða þar sem að brýnt er að hreinlætið sé í fyrirrúmi.

Í svona verkefni er ljóst að megin kostnaðurinn liggur í launaþættinum. Því liggur fyrir að annað hvort mun launaumslag ræstingafólksins ekki verða í samræmi við kjarasamninginn eða þá að það muni verða keyrt á allt of fáum starfsmönnum með tilheyrandi álagi sem stenst heldur ekki ákvæði kjarasamnings.“
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka