„Ég hélt að þetta væri okkar síðasta,“ sagði Grétar Þorgeirsson, skipstjóri á Farsæli GK 162. Báturinn fékk á sig þrjú brot í innsiglingunni til Grindavíkur um áttaleytið í gærkvöldi. Það síðasta færði bátinn næstum í kaf.
„Við áttum eftir um 500 metra inn á milli garða þegar fyrsta brotið kom. Þau komu þrjú nánast í röð. Það síðasta var lang, langstærst. Við þeyttumst nokkur hundruð metra bara með því broti,“ sagði Grétar.
Síðasta brotið færði bátinn í kaf svo einungis brúin stóð upp úr sjónum. Grétar sagðist aldrei hafa lent í neinu viðlíka til sjós. Hann hefur verið skipstjóri í Grindavík í 21 ár. „Þetta er bara það svakalegasta sem ég hef lent í.“
Brotin þrjú skullu á bátnum á 2-3 mínútum. Þegar Farsæll GK var að koma inn um áttaleytið í gærkvöldi var gott veður, norðaustan 5 m/s en rok í hafinu sem olli langri og djúpri úthafsöldu. Meðalölduhæð á ölduduflinu var 6,5 metrar en 300 metra löng.
Grétar sagði að þegar svona alda kæmi upp á grunnið þjappaði hún sig saman. Um þetta leyti var flóð og því brotnuðu öldurnar innar og nær hafnargörðunum en ef það hefði verið fjara.
Fjórir menn eru í áhöfn Farsæls GK og voru þeir allir staddir upp í brú þegar brotin skullu á bátnum. Þegar báturinn maraði í kafi fóru þeir að klæða sig í björgunarbúninga. „Þeim leist ekkert á það,“ sagði Grétar. Allir héldu ró sinni og voru mjög yfirvegaðir, að sögn Grétars.
Hann sagði að síðasta brotið hafi hreinsað allt af dekkinu. „Varasnurvoðin var í kassa á miðju dekkinu. Hún vegur nú eitt og hálft tonn! Hún hreinsaðist út,“ sagði Grétar.
Brotið tók líka hina snurvoðina fyrir borð. Um leið og báturinn hreinsaði sig eftir brotið var hann kominn nánast á milli hafnargarðanna. Grétar gat þá gefið í síðasta spölinn inn í höfnina.
„Ég varð að láta skrúfuna ganga því snurvoðirnar voru komnar í sjóinn. Ef ég hefði eitthvað slegið af þá hefðu þær ugglaust farið í skrúfuna. Þá hefði ekki verið að sökum að spyrja,“ sagði Grétar.
Eftir að Farsæll GK kom inn í höfnina kom sjokkið. Grétar kvaðst hafa hringt í skipsfélaga sína seint í gærkvöldi og þeim hafi öllum liðið eins. Fundið fyrir áfalli vegna þessa alvarlega atviks.
Sólborg RE ætlaði inn til Grindavíkur í gærkvöldi og var spölkorn á eftir Farsæli GK. Sólborgin er aðeins stærri en Farsæll. Grétar kvaðst hafa ráðið skipstjóranum á Sólborginni frá því að reyna það að fara inn í Grindavík. Innsiglingin væri ófær. Sólborgin fór því til Þorlákshafnar.
Grétar hefur áður fengið að kenna á sjólaginu í innsiglingunni til Grindavíkur. Hann var þá á Farsæli GK, eins og nú, en þetta var áður en bátnum var breytt og hann stækkaður.
„Ég strandaði einu sinni í innsiglingunni, það var 6. mars 1993. Þá fékk ég svona fyllu á mig og það drapst á aðalvélinni. Ég skautaði vélarvana upp í fjöru. Þá var ég allan tímann viss um að þetta yrði allt í lagi þegar ég var kominn upp í fjöruna. Þá gátum við farið í bátana og allt það,“ sagði Grétar.
Það er bræla í dag og veiðarfærin óklár. Önnur snurvoðin er rifin og hin öll í hnút. Hún verður tekin í land í dag og greitt úr henni. Grétar sagði að ef yrði sjóveður á morgun yrði líklega reynt að fara út þá.