„Allt samkvæmt áætlun“

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra. mbl.is/Ómar

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra segir ekkert hæft í þeim ásökunum að ríkisstjórnin verði sprengd í loft upp og að hún hafi í hótunum við þingmenn varðandi ESB-viðræðurnar.

Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, spurði Jóhönnu út í stöðu viðræðnanna. Hann segir að það blasi við hverjum einasta manni að viðræðurnar séu komnar í fullkomið uppnám og öngstræti, vegna ágreinings innan ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnaflokkanna. Það ríki algjör forystuleysi innan ríkisstjórnarinnar. „Þessar viðræður eru að verða að hálfgerðum skrípaleik. Það veit í raun og veru enginn hvert á að fara,“ sagði Einar og spurði Jóhönnu hvert ferðinni væri heitið. 

„Það gengur allt samkvæmt áætlun. Það er fullt samráð sem hefur verið haft við utanríkismálanefnd. Ráðherranefnd um ESB mál, sem í eiga auðvitað ráðherrar Samfylkingar og Vinstri grænna, hittast reglulega og bera saman bækur sína. Allt gengur samkvæmt áætlun. Rýnivinna er í fullum gangi og mun ljúka fljótlega,“ segir Jóhanna.

„Hvað samþykkti Alþingi hér á þessu þingi? Að það skyldi farið að leggja fram aðildarumsókn og sjá hvaða samninga við fengjum út úr þeim samningaviðræðum, og það er á fullri ferð. Auðvitað er það þannig að við eigum að treysta þá þjóðinni fyrir því að meta það hvort hún vill þessa samninga eða ekki,“ segir Jóhanna.

„Það eru fullkomnar getgátur og rangt að hér sé eitthvað skrykkjótt ferðalag í þessu efni. Það er allt á réttri leið í samræmi við þá ályktun sem Alþingi hefur samþykkt í þessu efni, og eftir henni er fullkomnlega farið.“

„Ég greindi frá því hér að það hefði verið upplýst hér úr ræðustól Alþingis af háttvirtum stjórnarliðum að þeir hefðu verið teymdir hér í hópum inn í bakherbergi til að fá þá til þess að samþykkja aðildarumsóknina að Evrópusambandinu, ellegar hefðu þeir það í hendi sér að ríkisstjórnin springi í loft upp,“ sagði Einar og bætti því við að Jóhanna væri með svari sínu að bera saka þingmennina um ósannindi.

Einar segir að eina ástæðan fyrir því að aðildarviðræðurnar haldi áfram sé sú að halda ríkisstjórninni saman. Jóhanna virðist lifa í öðru sólkerfi en aðrir og að hún sé að draga upp einhverskonar glansmynd af því hvernig viðræðurnar gangi fyrir sig. „Það veit öll þjóðin að þetta er rangt hjá forsætisráðherra,“ sagði Einar ennfremur.

Jóhanna vísaði ásökunum Einars á bug. „Ég veit ekki hverju þingmaðurinn er vanur í sínum eigin röðum, að hann sé teymdur í dilka þegar hann er eitthvað óþægur og vill ekki greiða atkvæði eins og er kannski í samræmi við stjórnarsáttmála.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert