Brúnþerna (Anous stolidus) skaut óvænt upp kollinum hjá fuglauppstoppara í Vestmannaeyjum fyrir skömmu. Tegundin er ákaflega fágæt hér um slóðir og ekki nema eitt staðfest dæmi þess að hún hafi fundist áður í Evrópu. Það var í Þýskalandi fyrir bráðum einni öld.
Fimm veiðimenn fóru í Suðurey í Vestmannaeyjum á lundaveiðitíma fyrir um áratug. Tveir þeirra ætluðu að nota tækifærið og ná í eina sæsvölu fyrir kunningja þeirra sem er fuglasafnari. Þeir fóru út um miðnættið með lundaháf sem þeir stungu niður í svörðinn og biðu átekta. Sæsvalan flýgur á nóttunni og var hún því komin á stjá.
„Það komu tveir fuglar í háfinn og þetta var annar þeirra,“ sagði annar þeirra sem fönguðu brúnþernuna. „Við vorum nokkuð vissir um að þetta væri skrofa og settum fuglinn bara í poka. Ég held að hann hafi farið beint í frystikistuna.“