Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hafnar því að nokkurt tilefni sé til að boða til landsfundar Sjálfstæðisflokksins nú vegna afstöðu þingflokksins til Icesave-málsins.
„Ég tel að það sé algerlega fráleitt að það sé tilefni til að boða til landsfundar. Landsfundur verður einfaldlega haldinn innan skamms tíma eftir þeim reglum sem skipulagsreglur flokksins kveða á um og miðstjórn á eftir að dagsetja hann,“ sagði Bjarni í viðtali í Kastljósinu í kvöld.
Bjarni sagði að ríkisstjórnin hefði klúðrað Icesave-málinu og þess vegna ríkti vantraust á málinu. Málið væri þó ekki eins umdeilt nú og þegar ríkisstjórnin lagði síðasta samning fyrir þingið.
„Ég er stoltur af frammistöðu þingflokks Sjálfstæðisflokksins í Icesave-málinu,“ sagði Bjarni þegar hann var spurður um gagnrýni flokksmanna á þingflokkinn.
Bjarni sagðist hafa fundið fyrir stuðningi við sín störf. Á næsta landsfundi þegar formaður flokksins yrði kjörinn myndu flokksmenn meta í heild störf sín fyrir flokkinn.