Guðmundur Runólfsson látinn

Guðmundur Runólfsson.
Guðmundur Runólfsson.

Guðmundur Runólfsson, skipstjóri og útgerðarmaður í Grundarfirði og heiðursborgari Grundarfjarðarbæjar, lést þriðjudaginn 1. febrúar, 90 ára að aldri.

Guðmundur var fæddur 9. október 1920 í Stekkjartröð í Eyrarsveit, sonur hjónanna Sesselju Gísladóttir og Runólfs Jónatanssonar.  Eiginkona Guðmundar var Ingibjörg S. Kristjándóttir, fædd 3. mars 1922, en hún lést 9. október 2008. Börn þeirra eru Runólfur, Kristján, Páll Guðfinnur, Ingi Þór, Guðmundur Smári, Svanur, María Magðalena og Unnsteinn. Einn dreng misstu þau í frumbersku.

Eftir nokkur ár á sjó og fiskimannapróf frá Stýrimannaskóla Íslands árið 1947 helgaði Guðmundur sig sjómennsku og útgerð í Grundarfirði.  Útgerðarfélagið Runólfur hf. var stofnað um rekstur trébáts sem hann og fleiri létu smíða. Sá bátur fékk nafnið Runólfur SH-135 en síðan hafa komið nokkrir Runólfar. Árið 1975 kom í höfn 47 metra langur skuttogari með sama nafni. Var það jafnframt fyrsti togarinn sem Grundfirðingar eignuðust. Þá var stofnað félag um útgerð togarans undir hans nafni og er félagið Guðmundur Runólfsson hf. í dag í hópi öflugustu fyrirtækja á Snæfellsnesi.

Útför Guðmundar fer fram frá Grundarfjarðarkirkju laugardaginn 12. febrúar klukkan 14.

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert