Kemur til greina að rýmka lög um Seðlabanka

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra telur koma til greina að lögum um Seðlabanka og Fjármálaeftirlit verði breytt í þá veru að þessum stofnunum verði gert að gefa meiri upplýsingar um starfsemi sína en þær gera í dag.

Jóhanna sagði þetta þegar Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokks, spurði hvað henni þætti um að seðlabankastjóri hefði neitað að svara spurningum þingnefndar um söluna á Sjóvá.

„Ég hef oft rekið mig á það sem þingmaður og reyndar líka sem ráðherra, að það er oft erfitt að fá upplýsingar, ekki bara úr Seðlabankanum heldur líka hjá Fjármálaeftirlitinu. Mér finnst að við eigum að fara sameiginlega yfir það hvort við eigum að rýmka eitthvað um í þeim lögum sem hugsanlega binda hendur Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins. Ég varð vör við það í hruninu að það var margsinni sem ég spurði um ýmsar upplýsingar, sem snertu hrunið, en við fengum þær ekki vegna þess að það var alltaf verið að vísa í lög um að Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn mætti ekki gefa hinar og þessar upplýsingar. Ég held að það komi til greina að fara yfir þessa löggjöf sem bindur hendur þessara eftirlitsstofnana og hvort þetta sé eðlilegt,“ sagði Jóhanna og bætti við að hún gæti tekið undir með Gunnari Bragi að í sumum tilfellum ætti að gefa meiri upplýsingar.

Gunnar Bragi benti á að þegar seðlabankastjóri kom fyrir þingnefndina hefði hann verið í hlutverki stjórnarformanns einkahlutafélags sem fór með eignarhlutinn í Sjóvá og hann efaðist um að honum væri stætt á því að svara ekki spurningum þingmanna um málið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert