Fréttaskýring: Mikil eðlisbreyting skattkerfisins

Fjármálaráðuneytið.
Fjármálaráðuneytið.

„Ég hef ekki fundið neitt dæmi um skatt sem þessi ríkisstjórn hefur ekki hækkað,“ sagði Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á þingfundi nú í vikunni.

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra greip þá fram í fyrir honum og benti á að lægra þrep virðisaukaskatts hefði ekki verið snert.

Hart var tekist á um skattastefnu ríkisstjórnarinnar, en þingmenn stjórnarandstöðunnar vildu meina að kerfið væri bæði flóknara en áður og skattgreiðendum íþyngjandi. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður og formaður Framsóknarflokksins, sagði að hér hefði verið komið upp skattkerfi sem „refsar fyrir uppbyggingu en verðlaunar stöðnun“.

Miklar breytingar hafa verið gerðar á skattkerfinu undanfarin ár, sér í lagi eftir að núverandi ríkisstjórn komst til valda. Hún stóð frammi fyrir miklu tekjufalli í kjölfar bankahrunsins, samfara gríðarlegri skuldaaukningu ríkisins. En auk hins beina tekjuöflunarþáttar horfir ríkisstjórnin til þriggja pólitískra markmiða skattkerfisins, jafnari tekjudreifingar, uppbyggingar græns hagkerfis og ívilnana til ákveðinna markmiða, svo sem atvinnuuppbyggingar.

Flækjustig aukist umtalsvert

„Ég myndi segja að það sem hefði gerst væri að það hefðu ekki einungis verið beinar tekjuskattshækkanir, og í einhverjum tilvikum lækkanir líka, heldur hefði kerfið á tiltölulega stuttum tíma orðið mjög flókið,“ segir Gunnar Egill Egilsson, lögfræðingur hjá Nordik lögfræðiþjónustu og sérfræðingur í skattamálum. Kerfið sé ennþá ekki jafn flókið og sums staðar annars staðar, en flækjustig hafi aukist umtalsvert. Hvaða áhrif það kunni að hafa sé erfiðara að segja til um. Sem dæmi um þær breytingar sem gerðar hafa verið eru þrepaskipting tekjuskatts, hækkun auðlegðar- og fjármagnstekjuskatta og breytt skerðingarhlutfall vegna barnabóta.

Gunnar tekur sem dæmi breytt fyrirkomulag fjármagnstekjuskatts. Fyrir tveimur árum hafi skattur á fjármagnstekjur verið „flöt“ 10%, en sé nú 20% og nýtt skattþrep hafi þar að auki bæst við. „Hluti húsaleigutekna skattleggst ekki lengur eins og aðrar fjármagnstekjur. Þetta er ekkert annað en flóknari útfærsla á nýju skattþrepi, því þar með er heildarskattlagning húsaleigutekna ekki í sama þrepi og almennar fjármagnstekjur. Þar fyrir utan var gefið ákveðið frítekjumark hvað varðar vaxtatekjur einstaklinga og hjóna. Þetta er mikil eðlisbreyting úr 10% flötum skatti í 20% flókinn skatt,“ segir Gunnar.

Treysta sér ekki til að reikna

Morgunblaðið ræddi við endurskoðendur sem veitt hafa einstaklingum aðstoð við framtalsgerð, en þeir voru á einu máli um það að skattkerfisbreytingarnar væru ekki einungis hinum venjulega skattgreiðanda erfiðar. Endurskoðendur sjálfir ættu fullt í fangi með að fylgjast með þróun mála. Framtalsgerð einstaklinga vegna ársins 2010 er ekki nema að litlu leyti komin af stað, og því erfitt að meta hver áhrif breytinganna kunni að verða.

Undanfarin ár hefur það færst í vöxt að almenningur treysti á sjálfvirka forskráningu í skattframtal. Flóknara skattaumhverfi er líklegt til þess að hraða þessari þróun, þar sem fólk muni í mörgum tilfellum hreinlega ekki treysta sér til þess að reikna sjálft hvað því beri að greiða. Þetta leiðir aftur til þess að fleiri villur slæðast með og þar með þörfin fyrir leiðréttingar með tilheyrandi ómaki ríkis og skattgreiðenda.

Skattur af leigutekjum

Greiða skal 20% skatt af fjármagnstekjum, en það hlutfall var lægst 10%. Sú breyting hefur síðan verið gerð að 70% brúttótekna af húsaleigu, annarri en þeirri sem telst vera atvinnurekstur, teljast til fjármagnstekna. Þar með er orðið til nýtt skattþrep fjármagnstekjuskatts, sem ekki var til fyrir. Fasteignamatið sem lagt er til grundvallar er rúmar 29 milljónir fyrir einstakling, eða tæpar 59 milljónir fyrir hjón. Sé fasteignamat útleigðrar eignar yfir þessum mörkum telst útleigan til atvinnurekstrar.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert