Sala á kjöti dróst saman um 1% á síðasta ári. Mestur var samdrátturinn á sölu á svínakjöti. Sala á lambakjöti stóð nánast í stað milli ára, en framleiðslan jókst. Sala á mjólk dróst saman um 1%.
Árið 2009 dróst sala á kjöti saman um 6,4%, en þá minnkaði sala á öllum kjöttegundum nema nautakjöti. Á síðasta ári minnkaði salan um 0,9%. Sala á svínakjöti minnkaði um 5,2%. Líkt og árið áður jókst sala á nautakjöti milli ára, en sala á öðrum helstu kjöttegundum breyttist lítið.
Um 30% af öllu kjöti sem seldist í fyrra var fuglakjöt, en hlutur lambakjöts var 26,2 og svínakjöts 25,2%.
Í fyrra dróst framleiðsla á kjöti saman um 1,2%. Framleidd voru 9.166 tonn af lambakjöti, en þetta er mesta framleiðsla á lambakjöti síðan árið 2000. Salan í fyrra nam hins vegar 6.274 tonnum. Framleiðsla á lambakjöti jókst um 3,7% milli ára.