Segir Sigmund Davíð fara rangt með

Fjármálaráðuneytið segir, að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, fari rangt með í grein, sem hann skrifar í Morgunblaðið í dag.

Vísar ráðuneytið til þess, að Sigmundur Davíð segi í greininni að Landsbankinn tekji heildsölulán  (innstæður sveitarfélaga, stofnana osfrv.) ekki til forgangskrafna. Glitnir flokki þau hins vegar sem forgangskröfur. Ef Landsbankinn tapar yfirstandandi málaferlum vegna þessa muni bætast yfir 170 milljarðar, á Seðlabankagengi, við kröfurnar.

„Fjármálaráðuneytið vill koma því á framfæri að hið rétta er að slitastjórn Landsbankans hefur viðurkennt forgang heildsöluinnlána að fjárhæð um 145 milljarðar króna.

Í mati samninganefndar Íslands á kostnaði við Icesave-samninginn hefur ætíð verið miðað við að þessi innlán yrðu flokkuð sem forgangskröfur. Einnig er rangt í umræddri grein að Glitnir flokki þessar kröfur sem forgangskröfur, það hefur slitastjórn hans einmitt ekki gert (gagnstætt slitastjórn Landsbankans). Þetta er því umdeilt lögfræðilegt álitaefni.

Færi svo, að dómstólar kæmust að þeirri niðurstöðu að þessar kröfur nytu ekki forgangs líkt og almenn innlán, myndi það þýða að heimtur upp í forgangskröfur myndu aukast og þar með yrði kostnaður ríkisins vegna samningsins og að meðtöldum vöxtum enginn, sé miðað við forsendur samninganefndarinnar.

 Kostnaðarmat samninganefndarinnar miðar við óhagstæðustu niðurstöðu um þetta álitaefni," segir fjármálaráðuneytið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert