Vaka, félag lýðræðissinnaðra stúdenta, sigraði með nokkrum yfirburðum í kosningum til stúdentaráðs. Vaka fékk 5 fulltrúa, en Röskva, samtök félagshyggjufólks við Háskóla Íslands, fékk 3 fulltrúa. Skrökva, félag flokksbundinna framapotara, fékk einn fulltrúa.
Þessi úrslit þýða að Vaka verður með hreinan meirihluta í stúdentaráði á næsta kjörtímabili. 20 fulltrúar sitja í stúdentaráði og er helmingur kosinn árlega. Eftir þessi úrslit sitja 11 fulltrúar Vöku í ráðinu.
Vaka fékk alls 1942 atkvæði eða 42,14% atkvæða sem greidd voru og 5 menn kjörna. Röskva hlaut 32,71% atkvæða og fékk 3 menn inn. Skrökva fékk 13,06% kjörfylgi og einn mann inn en nýtt framboð Stúdentafélags hægrimanna fékk 5,89% sem nægði ekki til sætis í Stúdentaráði.