Verð á bensíni hefur lækkað í dag og í gær hér á landi þrátt fyrir að heimsmarkaðsverð á bensíni hafi verið að hækka síðustu daga vegna mótmælanna í Egyptalandi.
Á föstudaginn var algengt verð á 95 oktana bensíni 214,30 á sjálfafgreiðslustöðvum.
Verðið var 209,60 kr á 95 oktana bensíni hjá ÓB og Atlantsolíu kl. 16:30 í dag, en ódýrast var það hjá Orkunni 209,50. Hugi Hreiðarsson, markaðsstjóri Atlantsolíu, sagði þegar rætt var við hann um verðbreytingarnar að Atlantsolía væri að fara að lækka niður í 208,80 kr. Hann sagði að verðsamkeppninni væri því ekki lokið.
Hugi sagði að verðbreytingar væru búnar að vera tíðar að undanförnu, en hann giskaði á að verðið hefði breyst um 40 sinnum frá áramótum.