Enn þokast lítt áfram í kjaraviðræðum Alþýðusambandsins og Samtaka atvinnulífsins og strandar enn á kröfu SA um að ríkisstjórnin geri grein fyrir framtíðarleið í stjórnun fiskveiða.
Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, segir samtökin í samskiptum við stjórnvöld um málið og reiknar með því að það verði leyst.
Þeir Vilhjálmur og Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, voru gestir opins fundar Verkalýðsráðs Sjálfstæðisflokksins um kjaramál í gærkvöldi. „Ég held því fram að það hafi ekki gerst að ASÍ hafi með þessum hætti tekið samfélagslegt mál sem atvinnurekendur geta ekki mætt og sett það sem skilyrði fyrir gerð kjarasamninga,“ sagði Gylfi sem sagði ennfremur að viðræður kæmust ekki áfram undir skilmálum SA um lausn á fiskveiðistjórnunarmálum. Sagði hann þessa þvingunarkröfu SA alveg á jaðri laganna.
Vilhjálmur sagði ástæðuna fyrir þeirri stöðu sem væri uppi í sjávarútvegi þá að traust gagnvart stjórnvöldum væri alveg horfið. Farið hefði verið gegn öllu því sem sagt hefði verið, til dæmis með skötuselsfrumvarpinu og frumvarpi sjávarútvegsráðherra um kvótaaukningu.