Eignuðust barn í bæli á Ströndum

Saga Eyvindar og Höllu hefur orðið mörgum yrkisefni í gegnum …
Saga Eyvindar og Höllu hefur orðið mörgum yrkisefni í gegnum tíðina, ritaðar bækur, greinar og leikrit. Hér eru Helgi Helgason og Guðrún Indriðadóttir í vinsælli uppfærslu LR fyrir um 100 árum. mbl.is/Leikfélag Reykjavíkur

Rannsókn á áður ókunnum skjölum um útileguhjúin Fjalla-Eyvind og Höllu hefur m.a. leitt í ljós að þau eignuðust barn í útilegubæli í Drangavíkurfjalli á Ströndum í mars árið 1763, skömmu áður en þau voru handtekin fyrir sauðaþjófnað og dæmd til ævilangrar refsivistar. Áður en til þess kom struku þau. Lík af ungbarninu fannst í bælinu eftir handtökuna, en barnið lifði aðeins í tvo daga.

Björk Ingimundardóttir, skjalavörður á Þjóðskjalasafninu, komst að þessu er hún fór að rýna í skjöl um yfirheyrslur yfir þeim hjúum, sem fram fóru í Árnesi í Trékyllisvík og á Hrófbergi við Steingrímsfjörð vorið 1763. Dómur var svo kveðinn upp í Broddanesi í Kollafirði 30. maí sama ár.

Björk segir í samtali við Morgunblaðið að til þessa hafi dvöl þeirra í Drangavíkurfjalli og líkfundur á barninu ekki verið alkunna. Það komi einnig ýmislegt fram í yfirheyrslunum sem staðfestir að þau hafi áður verið á Hveravöllum en þó ekki haft þar vetursetu. Nánar verður greint frá þessari rannsókn í grein sem Björk er að vinna fyrir tímarit Strandamannafélags Reykjavíkur, Strandapóstinn.

Dóttirin Ólöf með í bælinu

Áður en Eyvindur Jónsson, Fjalla-Eyvindur, kynntist ekkjunni Höllu Jónsdóttur á Ströndum hafði hann sem ungur maður eignast tvö börn á Suðurlandi, en Eyvindur fæddist í Hlíð í Hrunamannahreppi árið 1714 og gerðist síðar vinnumaður í Traðarholti í Flóa, þaðan sem hann strauk.

Að sögn Bjarkar benda skjölin frá yfirheyrslunum til þess að þau Eyvindur og Halla hafi átt a.m.k. eitt barn áður en þau voru handtekin, Ólöfu, sem líklegt er að hafi verið í bælinu með þeim í Drangavíkurfjalli. Munnmælasögur hafa bent til þess að þau hafi eignast fleiri börn en um þau er lítið vitað.

Nýjar fréttir af Fjalla-Eyvindi

Erindi sem byggist á rannsókn Bjarkar Ingimundardóttur verður flutt á Hólmavík á morgun, laugardag, af Kjartani Ólafssyni, fv. þingmanni og ritstjóra. Fékk Kjartan aðgang að skjölunum í tilefni ferðar sem hann fór sl. sumar á slóðir Fjalla-Eyvindar og Höllu á Ströndum. Erindið verður flutt kl. 16 í Skelinni, lista- og fræðimannadvöl Þjóðfræðistofu á Hólmavík. Heitt verður á könnunni og allir velkomnir en yfirskrift erindis Kjartans er „Nýjar fréttir af Fjalla-Eyvindi á Ströndum“. Þess ber að geta að Björk hefur einnig flutt erindi um rannsókn sína, m.a. hjá Sögufélagi Árnesinga.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert