Lúxusjeppinn Land Cruiser 200 verður ófáanlegur nýr í ár, eflaust einhverjum til armæðu.
Um er að kenna reglum Evrópusambandsins um mengunarvarnir en hert var á þeim um áramót. Vél jeppans uppfyllir ekki kröfur þeirrar reglugerðar.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segist framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Toyota á Íslandi ekki hafa miklar áhyggjur, enda sala á Land Cruiser 200 ekki mikil miðað við sölu á Land Cruiser 150 en biðlisti er eftir honum.
Mengunarstaðaðallinn sem um ræðir nefnist Euro 5 og vélar bifreiða verða að uppfylla hann til að selja megi þá nýja í Evrópu. Staðallinn tekur við af Euro 4 sem Land Cruiser 200 uppfyllir. Aðrir bílar sem Toyota á Íslandi selur uppfylla Euro 5-staðalinn.