InDefence hópurinn segist ekki styðja Icesave-samninga í óbreyttri mynd. Bent er á að umsögn hópsins til Alþingis hafi ekki falið í sér jákvæða afstöðu og þá hafi enn ekki verið sýnt fram á annað en að kröfur Breta og Hollendinga um ríkisábyrgð séu ólögvarðar.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá hópnum.
Þar segir ennfremur að forgangsréttur Tryggingasjóðs innistæðueigenda í eignir Landsbankans eigi að vera krafa íslenskra stjórnvalda ef gera eigi samning án úrskurðar um lögmæti kröfunnar.
Þá segir hópurinn að núverandi samningar feli óbreyttir í sér mikla fjárhagslega áhættu fyrir Ísland.
Tilkynning er svohljóðandi:
„Undanfarna daga og vikur hafa fjölmiðlar og stjórnmálamenn slegið því fram að InDefence hópurinn hafi jákvæða afstöðu gagnvart Icesave III samningunum. Það er rangt.
Þann 10. janúar skilaði InDefence hópurinn umsögn um núverandi Icesave samninga til fjárlaganefndar Alþingis. Umsögnin var einnig afhent öllum þingmönnum.
Í umsögninni er ítarlega fjallað um þá miklu fjárhagslegu áhættu sem núverandi samningar fela í sér fyrir Íslendinga. Sú áhætta er staðfest í öðrum efnahagslegum umsögnum. Í umsögninni er lögð rík áhersla á að til að samningarnir geti talist ásættanlegir sé nauðsynlegt að draga úr þessari áhættu.
Þegar útgreiðslur úr þrotabúi Landsbankans hefjast verður að tryggja að Íslendingar njóti aukins forgangs. Með þeirri breytingu að jafnstöðusamningar (Pari Passu) milli aðila yrðu felldir úr gildi yrði áhættu núverandi og komandi kynslóða Íslendinga mætt að verulegu leyti.
Í umsögninni segir orðrétt: „Þetta á að vera krafa íslenskra stjórnvalda ef gera á samning án þess að skorið sé úr um lögmæti greiðsluskyldunnar.“ Í samræmi við þessa umsögn, ráðlagði InDefence fjárlaganefnd Alþingis að sameinast um eina breytingartillögu sem hefði minnkað fjárhagslega áhættu þjóðarinnar og skapað meiri frið um Icesave samkomulagið.
Afstaða InDefence hópsins hefur verið skýr og hin sama frá upphafi málsins:
Grundvallaratriði er að samningar um Icesave málið endurspegli þrjú meginatriði:1. Að ekki sé lögbundin greiðsluskylda að baki kröfum Breta og Hollendinga.
2. Að samningar feli í sér skipta ábyrgð allra samningsaðila.
3. Að samningar feli í sér skipta áhættu allra samningsaðila.Að mati InDefence hópsins endurspegla núverandi samningar ekki þessa þætti með fullnægjandi hætti.“