Óánægja er innan Sjálfstæðisflokksins með afstöðu þingmanna flokksins sem styðja Icesave-frumvarpið. Kemur hún fram í ályktunum flokksfélaga en mest þó á netinu. Um þrír tugir manna hafa sagt sig úr flokknum.
Meðal annars hafa komið fram kröfur um að nýi Icesave-samningurinn verði borinn undir þjóðina.
Níu þingmenn Sjálfstæðisflokksins greiddu atkvæði með Icesave-frumvarpinu þegar það var afgreitt eftir 2. umræðu í gær, ásamt þingmönnum stjórnarflokkanna. Unnur Brá Konráðsdóttir greiddi atkvæði á móti og fjórir þingmenn flokksins sátu hjá.
Í ályktun sem stjórn sjálfstæðisfélagsins Baldurs í Kópavogi sendi frá sér í gærkvöldi eru þingmenn flokksins harðlega gagnrýndir fyrir að ganga á svig við afdráttarlausa afstöðu síðasta landsfundar Sjálfstæðisflokksins til þessa máls. Átta félög ungra sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi segja í sameiginlegri ályktun að þingmenn sem greiða atkvæði með Icesave-frumvarpinu starfi ekki í þeirra umboði og þeim beri að segja af sér.
Fyrrnefnd félög ungra sjálfstæðismanna skora á miðstjórn Sjálfstæðisflokksins að boða nú þegar til landsfundar þar sem umboð formanns og varaformanns flokksins verði kannað, eins og stjórn Heimdallar ályktaði um í fyrradag. Í millitíðinni verði boðað til flokksráðsfundar þar sem málið verði tekið fyrir.