Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur upplýst um sjötíu innbrot sem framin voru í íbúðarhúsum. Þjófarnir höfðu mikil verðmæti upp úr krafsinu, óljóst er hvort þeir hafi losað sig við eitthvað af þeim.
„Þetta er með umfangsmeiri þjófnaðarmálum sem við höfum séð, “ sagði Árni Þór Sigurmundsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn í lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.
Í byrjun október síðastliðinn fór að bera á aukningu á innbrotum í heimahús á höfuðborgarsvæðinu. Innbrotin voru framin með svipuðum hætti og virtust þjófarnir helst hafa áhuga á skartgripum.
Fyrstu innbrotin voru framin í Kópavogi og Breiðholti en færðust svo yfir til Hafnarfjarðar og Garðabæjar. Upplýsingar voru sendar íbúum á vef lögreglu þann 14. desember þar sem varað var við innbrotsþjófum og íbúar hvattir til að láta lögreglu vita yrðu þeir grunsamlegra mannaferða varir.
Grunur beindist að ákveðnum mönnum og voru þeir yfirheyrðir án þess að niðurstaða fengist. Laugardaginn 15. janúar var einn þessara manna handtekinn vegna gruns um innbrot í heimahús í Mosfellsbæ. Hann var í framhaldinu úrskurðaður í viku gæsluvarðhald.
Tveir menn voru handteknir í kjölfarið sem taldir voru meðsekir. Þeir voru einnig úrskurðaðir í gæsluvarðhald.
Þremenningarnir, sem eru tveir 17 ára piltar og 23 ára karlmaður, hafa sætt varðhaldi óslitið frá þeim tíma. Þeir eru af erlendu bergi brotnir en búsettir hér á landi.
Þeir hafa játað rúm fimmtíu innbrot í heimahús á höfuðborgarsvæðinu, þau fyrstu framin fyrir tveimur árum síðan, og vel á annan tug innbrota í hótel og gistiheimili. Samtals liggja því fyrir játningar á um sjötíu innbrotum.
Rannsókn þessara mála hefur verið mjög umfangsmikil af hálfu lögreglu en á þriðja tug manna hafa komið að henni með einum eða öðrum hætti. Rannsókn stendur enn yfir.
Árni Þór Sigurmundsson segir að grunsemdir hafi vaknað þegar bent var á grunsamlegar mannaferðir. Hann segir að flest hafi innbrotin átt sér stað að degi til eða að kvöldlagi og þau hafi átt það sameiginlegt að augljóst hafi verið að skipulega hafi verið gengið til verks og mikið hafi verið rótað.
Að sögn Árna Þórs höfðu þjófarnir gríðarleg verðmæti upp úr krafsinu, meðal annars tölvur, flatskjái og skartgripi.
Hann segir lögreglu nú rannsaka hvort þjófarnir hafi losað sig við eitthvað af þýfinu og verður haft samband við brotaþola á næstu dögum varðandi bótakröfur.