Spáð vaxandi éljagangi og samfelldri snjókomu

Búast má við að skyggni verði víða fremur lítið um …
Búast má við að skyggni verði víða fremur lítið um tíma, ekki síst á Hellisheiði og í Þrengslum. Mynd úr safni. mbl.is/Þorkell

Gert er ráð fyrir vaxandi éljagangi og samfelldri snjókomu um tíma á Suður- og Suðvesturlandi með kvöldinu að sögn veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands. Jafnframt bætir heldur í og búast má við að skyggni verði víða fremur lítið um tíma, ekki síst á Hellisheiði og í Þrengslum. Veðrið gengur síðan niður á þessum slóðum seint í kvöld. 

Það er hálka og éljagangur á Hellisheiði, í Þrengslum og á Reykjanesi. Snjóþekja og sjókoma er á flestum vegum á Suðurlandi og allt austur að Kvískerjum að sögn Vegagerðarinnar.

Það er hálka á Vesturlandi. Hálka og éljagangur er á Fróðarheiði.

Á Vestfjörðum er hálka, hálkublettir og snjóþekja. Snjóþekja og skafrenningur er á Steingrímsfjarðarheiði og þæfingsfærð er á Kleifaheiði.

Hálka eða hálkublettir eru á flestum vegum á Norðurlandi.

Á Austur- og Suðausturlandi eru ýmist hálkublettir eða hálka.

Vegagerðin og Náttúrustofa Austurlands vara vegfarendur á Austurlandi við mikilli umferð hreindýra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert