Geir styður Bjarna

Geir H. Haarde og Inga Jóna Þórðardóttir, eiginkona Geirs, voru …
Geir H. Haarde og Inga Jóna Þórðardóttir, eiginkona Geirs, voru á meðal fundargesta í Valhöll í dag. mbl.is/Kristinn

Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, segist styðja Bjarna Benediktsson, núverandi formann flokksins, í Icesave-málinu. Geir segir að Bjarni hafi rökstutt mál af ábyrgð og með málefnalegum hætti.

„Mér fannst þetta vera góður og vel heppnaður fundur,“ segir Geir í samtali við mbl.is að loknum fundi sem Bjarni boðaði til í Valhöll í dag.

Geir segir að Bjarni hafi gert mjög vel grein fyrir sinni afstöðu. „Ég styð hann í þessu máli og ég tel að hann hafi komið fram af ábyrgum og málnefnalegum hætti,“ segir hann.

„Eflaust mun ríkisstjórnin hafa einhvern ávinning af því að þessu máli ljúki, en það er ekki hægt að hugsa um þetta út frá þeirri forsendu. Það verður að hugsa um þetta út frá því hvað er þjóðinni fyrir bestu í þessari stöðu. Menn leggja lagalegan ágreining til hliðar við lausn þessarar deilu og hafa komist hér að pólitískri niðurstöðu, sem er viðunandi miðað við aðra kosti í stöðunni. Það finnst mér vera aðalatriðið í þessu máli,“ segir Geir.

„Ég tel að Bjarni Benediktsson og hans samstarfsmenn hafi sýnt mikinn kjark með því að taka þessa afstöðu og ljúka þessu ömurlega máli,“ segir Geir.

Aðspurður segir hann ljóst að það séu skiptar skoðanir meðal sjálfstæðismanna um sum atriði. Að sínu mati hafi formaðurinn þó fengið mjög góðar undirtektir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert