Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að staðan í Icesave-málinu sé gjörbreytt og núverandi samkomulag sé mun betri en fyrra samkomulag. Frá sínum sjónarhóli séð snúist málið um ískalt hagsmunamat. Meiri áhætta sé því fólgin að fara með málið fyrir dómstóla.
Hann segir ljóst að enn séu skiptar skoðanir um samkomulagið. Hann segir að það komi ekki til greina að hefja nýtt samningaferli. Núna sé því lokið.
Bjarni segir að Bretar og Hollendingar hafi slegið af kröfum sínum. Nú sé spurning hvor það þjóni hagsmunum Íslands að láta reyna á réttarstöðuna fyrir dómstólum. Bjarni telur skynsamlegast að semja.
Bjarni segir að sterk réttarstaða Íslands hafi leitt til mun sanngjarnari niðurstöð í deilunni. Menn standi nú frammi fyrir því að ljúka málinu með þessum hætti eða fara fyrir dómstóla. Þar sé hins vegar ekki á vísan að róa.
Málið snýst um ískalt hagsmunamat. Hann byggir sína afstöðu á því mati.
Hann segir að þáttaskil hafi orðið í meðhöndlun ágreiningsins með þjóðaratkvæðagreiðslunni í mars í fyrra.
Í gömlu samningum hafi í öllu verið fallist á kröfur Breta og Hollendinga. Nú sé allt önnur staða. Ný samningsdrög leggi fyrir Íslendinga mun betri samning.
Það sé afar mikilvægt að muna að forsætisráðherra og fjármálaráðherra hafi engan rétt til þess að eigna sér þá niðurstöðu sem nú liggi fyrir þinginu. Þetta sé niðurstaða íslensku þjóðarinnar. Stjórnvöld geti ekki skotið sér undan ábyrgð á fyrri samningum.
Bjarni tekur fram að það hefði ekki þurft að vinda ofan af þeirri skelfilegu stöðu sem kom upp ef stjórnvöld hefðu haldið uppi vörnum fyrir Ísland. Megin meinsemdin sé sjálf stefna ríkisstjórnarinnnar