Útilokar ekki þjóðaratkvæðagreiðslu

Bjarni Benediktsson.
Bjarni Benediktsson.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, útilokar ekki að frumvarp um Icesave-samninga fari í þjóðaratkvæðagreiðslu, áður en það verður að lögum. Það fari þó eftir samstöðu í þinginu og hversu almenn krafa verður uppi um slíkt.

„Þetta er ekki ný hugmynd. Hún verður væntanlega til umræðu á Alþingi. Ég hef ekki útilokað hana,“ segir Bjarni þegar leitað er álits hans á kröfu um þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave-málið sem meðal annars kom fram í ályktunum sjálfstæðisfélaga á Selfossi og í Kópavogi eftir að níu þingmenn Sjálfstæðisflokksins greiddu atkvæði með Icesave-frumvarpinu eftir 2. umræðu á Alþingi í fyrradag. Bjarni segir að sama gildi um þetta mál og önnur, að slíkt fari eftir þeirri samstöðu sem náist á Alþingi og hversu almenn krafa verði um slíka tilhögun.

Allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins studdu tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave í lok árs 2009. Bjarni segir langt í frá að nú séu uppi sömu aðstæður. „Þá átti að stefna efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar í voða,“ segir hann.

Félög ungra sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi og Reykjavík hafa krafist þess að efnt verði til landsfundar þegar í stað til að kanna umboð forystu flokksins. „Það er engin ástæða til að flýta landsfundi. Hann mun fara fram í samræmi við skipulagsreglur flokksins, annaðhvort seint á þessu ári eða snemma á því næsta,“ segir Bjarni.

Hann segir það mikinn misskilning að ályktun síðasta landsfundar um Icesave sem vísað hefur verið til í ályktunum sumra flokksfélaga hafi ekki verið fylgt. „Landsfundarályktunin styrkti aðild okkar að samningaferlinu sem þá stóð yfir, með því að hafna algerlega þeim kröfum sem Bretar og Hollendingar höfðu haft uppi. [...] Samningur var í framhaldinu gerður á gerbreyttum forsendum,“ segir Bjarni. Nánar spurður um þetta segir hann það grundvallaratriði að þau samningsdrög sem nú er verið að fjalla um byggist ekki á því að Íslendingum hafi borið skylda til þess að lögum að semja.

Spurður um stöðuna í flokknum vegna þessa máls segir Bjarni: „Ég er ánægður með þann mikla stuðning sem ég hef fengið í málinu í gær og í dag, víða af landinu. Ég finn að það er vaxandi skilningur á því að sú niðurstaða sem nú er fengin sé þjóðinni til hagsbóta. Það eina sem vakir fyrir mér er að leiða fram niðurstöðu sem er þjóðinni til heilla og ég er sannfærður um að sjálfstæðismenn vilja slíka niðurstöðu,“ segir hann.

Bjarni heldur framsögu um Icesave-málið og svarar fyrirspurnum á opnum fundi í Valhöll í dag kl. 13. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert