Samninganefnd starfsmanna í loðnubræðslu fundar í dag með Samtökum atvinnulífsins til að ná sáttum um kjör sín en félagsdómur dæmdi boðað verkfall þeirra ólöglegt á fimmtudaginn. Fundurinn hefst klukkan tvö og segist Sverrir Mar Albertsson tiltölulega bjartsýnn á að samningar takist.
„Við erum í þeim bransa að gera kjarasamninga, ekki fara í verkföll,“ segir Sverrir og kveðst binda vonir við að sáttir náist á fundinum, að fara í verkfall sé örþrifaráð. „Við höfum verið að fara yfir okkar stöðu frá því í gær og erum að reyna að búa til leiðir til að ljúka þessu máli.“
Félagsdómur dæmdi boðað verkfall ólöglegt á þeirri forsendu að ekki hefðu verið haldnir formlegir sáttafundir áður en það var boðað. Fyrsta verkfallið átti að hefjast 7. febrúar. Verkfallið var boðað af Afli á Austurlandi og Drífanda í Vestmannaeyjum. Það átti að ná til loðnubræðslna á Vopnafirði, Seyðisfirði, Norðfirði, Eskifirði, Fáskrúðsfirði, Hornafirði og í Vestmannaeyjum.