„Maður grætur ekki snjóinn“

Einar Bjarnason rekstrarstjóri í Bláfjöllum segir stemninguna á skíðasvæðinu í Bláfjöllum ótrúlega en þar opnaði í dag í fyrsta sinn á þessu ári. Einar segir svo marga í brekkunum að hann geti ómögulega giskað á fjöldann.

„Það eru raðir í báðar stólalyfturnar en það er töluvert langt síðan það hefur gerst. Allar barnalyftur eru pikkfullar og við gætum allt eins bætt við fjórum.“ Að sögn Einars er skíðafólkið í meirihluta en nokkrir brúka þó snjóbrettin og þeir yngstu snjóþoturnar. Dagurinn hefur gengið stórslysalaust fyrir sig fyrir utan nokkrar tognanir og önnur smámeiðsli.

„Það hefur verið frábært útivistarveður í dag. Það komu reyndar tvö él en það hefur ekki bitið á neinn. Það er partur af stemningunni, maður grætur ekki snjóinn,“ segir Einar og bætir við að útlitið sé nokkuð gott fyrir næstu daga þrátt fyrir hita í kortunum. „Við erum svo bjartsýnir hérna í fjöllunum að við höldum að hitinn nái ekki til okkar og þó svo við fáum smá rigningu í hálfan sólarhring eða sólarhring þá þéttir það bara snjóinn og hann verður betri. Við erum í góðum málum.“

Opið er í Bláfjöllum alla virka daga frá klukkan 14 til 21 og frá klukkan 10 til 17 um helgar. Skíðasvæðið opnar þó fyrr fyrir hópa en að sögn Einars byrjuðu skólahópar að skrá sig í morgun. „Um leið og við opnuðum fóru skólarnir að bóka sig sem er náttúrulega bara frábært. Við þökkum fyrir móttökurnar, það virðast allir bíða eftir þessu svo við erum mjög glaðir,“ segir Einar að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert