Grunnviðmið 86.530 krónur

Grunnviðmið fyrir útgjöld einstaklings, sem býr á höfuðborgarsvæðinu, er  86.530 krónur, samkvæmt skýrslu um neysluviðmið, sem birt var í dag.  Grunnviðmið fyrir útgjöld hjóna með tvö börn sem búa á höfuðborgarsvæðinu er 286.365 krónur.

Fram kemur í skýrslunni, að grunnviðmið eigi að gefa vísbendingu um hver geti verið lágmarksútgjöld fólks í ákveðnum útgjaldaflokkum. Við gerð þeirra hafi verið horft til útgjaldadreifingar í neyslukönnun Hagstofunnar og grunnviðmið annarra Norðurlandaþjóða höfð til hliðsjónar.

Dæmigert viðmið fyrir útgjöld einstaklings sem býr á höfuðborgarsvæðinu í eigin húsnæði, er hins vegar 291.932 krónur. Dæmigert viðmið fyrir útgjöld hjóna með tvö börn sem búa á höfuðborgarsvæðinu í eigin húsnæði er 617.610 krónur. Þá er gert ráð fyrir að annað barnið sé á leikskóla en hitt í grunnskóla þar sem keyptar séu skólamáltíðir og frístundavistun. 

Einnig voru reiknuð út svonefnd skammtímaviðmið, sem eru byggð á sömu forsendum og í dæmigerðu viðmiðunum en gert ráð fyrir að fólk geti dregið út neyslu og frestað ákveðnum útgjaldaliðum til skemmri tíma, eða í allt að níu mánuði.

Miðað við sömu forsendur er skammtímaviðmið fyrir einstakling á höfuðborgarsvæðinu 201.132 krónur en fyrir fjögurra manna fjölskylduna er það 447.544 krónur.

Velferðarráðuneytið segir, að tilgangurinn með smíði neysluviðmiða sé að veita heimilum í landinu aðgang að viðmiðum sem þau geti haft til hliðsjónar þegar þau áætla eigin útgjöld, auk þess sem slík viðmið geti nýst við fjármálaráðgjöf fyrir einstaklinga og verið grunnur að ákvörðunum um fjárhæðir sem tengjast framfærslu.

Viðmiðin séu hvorki endanlegur mælikvarði á hvað sé hæfileg neysla fjölskyldna né dómur um hvað einstakar fjölskyldur þurfa sér til framfærslu.

Skýrsla um neysluviðmið

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert