Stjórnarmaður í Orkuveitu Reykjavíkur lagði til í dag að ráðningu nýs forstjóra verði frestað þar vegna athugasemda, sem gerðar hafi verið við ráðningarferlið. Tillagan var felld.
Kjartan Magnússon, sem situr í stjórn Orkuveitunnar fyrir hönd Sjálfstæðisflokks, lagði fram tillögu þar sem segir, að fyrir borgarráði Reykjavíkur sé nú til meðferðar tillaga um að borgarlögmanni verði falið að skoða ráðningarferlið og skila áliti á því hvort það samræmist góðum stjórnarháttum, sem eðlilegt er að séu viðhafðir í opinberu fyrirtæki. Lagði Kjartan til að ráðningu forstjóra verði frestað þar til borgarráð hafi tekið afstöðu til tillögunnar.
Tillaga Kjartans var felld og meirihluti stjórnar lagði til að gengið yrði til samninga við Bjarna Bjarnason, forstjóra Landsvirkjun Power, um starf forstjóra Orkuveitunnar.
Kjartan sat hjá í atkvæðagreiðslu um þá tillögu og sagðist í sérstakri bókun ekki sjá sér fært að taka þátt í þeim vinnubrögðum, sem ástunduð hafi verið í þessu máli af meirihluta stjórnar. Kjartan tekur jafnframt fram að hann óski nýráðnum forstjóra velgengni í starfi.