Fari svo að gengi krónunnar lækki um tæplega 50%, útgreiðslur úr þrotabúi Landsbankans tefjist fram á næsta ár og eignasafn þrotabús Landsbankans lækki um 10% í verði, mun kostnaður vegna ríkisábyrgðar á Icesave-kröfum Breta og Hollendinga samsvara um tveimur milljónum króna á hvert heimili á Íslandi.
Sú upphæð samsvarar um þriðjungi meðalráðstöfunartekna heimila á Íslandi, sem voru um 5,8 milljónir að meðaltali árin 2007-2009 samkvæmt rannsókn Hagstofu Íslands.
Í umfjöllun um kostnað vegna ríkisábyrgðarinnar í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að fari svo að krónan styrkist um 50% á tímabilinu fram til ársloka 2016 mun upphæðin verða mun lægri og hlaupa á hundruðum þúsunda. Þess má geta að í janúar veiktist krónan um meira en 4,5%.