Arion banki hótaði að loka svínabúum

Arion banki hótaði að loka tveimur svínabúum sem bankinn eignaðist á síðasta ári ef Samkeppniseftirlitið samþykkti ekki yfirtöku Stjörnugíss á búunum. Í forúrskurði sem Samkeppniseftirlitið sendi til umsagnar var lagst gegn yfirtökunni, en komist var síðan að annarri niðurstöðu í endanlegum úrskurði.

Mál þetta er búið að eiga sér langan aðdraganda, en svínabúin á Hýrumel í Borgarfirði og Brautarholti á Kjalarnesi komust í þrot í byrjun síðasta árs og yfirtók Arion banki búin. Bankinn auglýsti síðan bæði búin til sölu. Smærri framleiðendur gagnrýndu þá ákvörðun og töldu að eðlilegra hefði verið að selja þau í sitthvoru lagi til að auka möguleika smærri framleiðenda til að eignast þau. Nokkur tilboð bárust, en Arion banki taldi að aðeins tilboð frá Stjörnugrís hefði verið með þeim hætti að til greina kæmi að taka því. Stjörnugrís er langstærsti svínakjötsframleiðandi landsins.

Fimm smærri svínabændur kærðu kaup Stjörnugríss á búunum á þeirri forsendu að Stjörnugrís væri kominn með markaðsráðandi stöðu í framleiðslu á svínakjöti og slátrun á svínum. Í desember fengu þeir í hendur forúrskurð þar sem segir að á mörkuðum með svínakjöt og svínaslátrun „séu það miklar aðgangshindranir að ólíklegt sé að Stjörnugrís muni njóta fullnægjandi samkeppnislegs aðhalds frá núverandi eða mögulegum framtíðarkeppninautum.“

Í endanlegum úrskurði, sem féll í síðustu viku, hafði Samkeppniseftirlitið hins vegar breytt um afstöðu og féllst á yfirtöku Stjörnugíss á búunum.

Í forúrskurðinum er sérstaklega fjallað um þau rök að svínabúin tvö séu fyrirtæki á fallandi fæti, en Arion banki taldi að búin myndu fara úr rekstri ef ekki yrði fallist á söluna til Stjörnugríss. Í forúrskurðinum taldi Samkeppniseftirlitið að Arion banka eða Stjörnugrís hefði ekki tekst að sýna fram á með fullnægjandi hætti að þetta ákvæði samkeppnislaga ætti við. Í endanlegum úrskurði er hins vegar komist að þeirri niðurstöðu að ákvæði laga um fyrirtæki á fallandi fæti eigi við í þessu máli. „Byggir það mat meðal annars á skýrum yfirlýsingum Arion banka um mögulega meðferð eignanna yrði samruninn ógiltur,“ eins og segir í úrskurðinum.

Lesa má út úr niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins að Arion banki hafi hótað að loka búunum að Brautarholti og Hýrumel ef kaup Stjörnugríss á búunum yrði ekki samþykktur, en búin eru samtals um 12.000 fm að stærð. Í úrskurðinum segir: „Myndu svínabúin á Hýrumel og Brautarholti bæði hætta framleiðslu sem telja má líklegt verði ekki af kaupum Stjörnugríss, má ætla að það dragi verulega úr framleiðslu á svínum til slátrunar. Má ætla að sá samdráttur myndi til skamms tíma leiða til verulegs samdráttar í framboði ásamt því sem verð myndi hækka.“
 
Niðurstaða Samkeppniseftirlitsins er því sú að samkeppni myndi raskast álíka mikið ef samruninn yrði ógiltur og ef Samkeppniseftirlitið heimilar hann án ívilnunar.

Þess má geta að tveir svínakjötsframleiðendur hafa kvartað til Samkeppniseftirlitsins vegna framgöngu Stjörnugríss á markaði, en þeir saka fyrirtækið um undirboð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert