Brjálað veður í Eyjum

Björgunarsveitarmenn festa klæðningu á húsi við Fjólugötu í Eyjum.
Björgunarsveitarmenn festa klæðningu á húsi við Fjólugötu í Eyjum. mbl.is/Óskar Pétur Friðriksson

Brjálað veður hefur verið í Vestmannaeyjum í kvöld, eins og víðar við sunnan- og vestanvert landið. Björgunarsveitir hafa fest plötur og klæðningar og lögreglan fengið sjö útköll frá kl. 18 vegna óveðursins. Ekkert alvarlegt tjón hefur orðið.

Útköll hafa verið vegna klæðninga sem fokið hafa af einbýlishúsum í bænum, vatn hefur lekið ofan í kjallara, bílar hafa fokið til og eigendur smábáta hafa þurft að huga að fleytum sínum. Þannig þurfti að dæla vatni upp úr einum litlum skemmtibáti sem maraði við flotbryggju í hálfu kafi er eigandinn kom að.

 Að sögn lögreglunnar í Eyjum er enn hávaðarok og mikill vatnselgur á götum úti. M.a. þurfti að aðstoða ökumenn sem réðu ekkert við bílana í ofanverðum bænum, snerust þeir á punktinum, eins og það var orðað, slíkt var rokið. Vindhviður fór upp í um 50 metra á sekúndu á Stórhöfða og vindhraðinn var lítið minni í bænum þegar verst lét.

Lögreglumaður, sem mbl.is ræddi við, sagði björgunarsveitarmenn í Eyjum, sem annars staðar á landinu, eiga heiður skilinn fyrir þeirra störf.

Vatni dælt upp úr báti við smábátahöfnina í Eyjum í …
Vatni dælt upp úr báti við smábátahöfnina í Eyjum í kvöld. mbl.is/Óskar Pétur
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert