Búist við snörpum vindhviðum

Spáð er stormi suðvestan- og vestanlands í kvöld.
Spáð er stormi suðvestan- og vestanlands í kvöld. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hefur vakið athygli á stormviðvörun frá Veðustofu Íslands. Spáð er austan og suðaustan stormi sunnan- og vestanlands fram á nótt.

Lögreglan segir, að þar sem búast megi við snörpum vindhviðum og úrkomu sé talið rétt að athuga með lausamuni og hreinsa frá niðurföllum. Eru björgunarsveitarmenn komnir í viðbragðsstöðu.

Vegfarendur eru hvattir til þess að fylgjast með veðri og færð áður en lagt er af stað. Nánari upplýsingar er að finna á vef Veðurstofu Íslands www.vedur.is og Vegagerðarinnar www.vegagerdin.is.

Samkvæmt vef Vegagerðarinnar er nú skollið á óveður á Reykjanesbraut, Hellisheiði, í Þrengslum, á Kjalarnesi og undir Akrafjalli og Hafnarfjalli. Vindhraði mælist þar nú yfir 20 metra á sekúndu, og ökumenn því beðnir að fara varlega. Þá er orðið hvasst á Holtavörðuheiði og vindhræði um 22 metrar á sekúndu. Einnig er brostið á óveður á Suðurlandsvegi undir Eyjafjöllum.

Nú undir kvöld mældist vindhraði á Stórhöfða í Vestmannaeyjum 36,7 metrar á sekúndu, við Þyril 28,5 m/s og við Gullfoss 24,8 m/s. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka