„Við verðum að horfast í augu við hvað þjóðin skapar af verðmætum og hvernig þeim er skipt [...] Það verður erfitt og sárt fyrir þjóðina að átta sig á því að við þurfum að færa okkur niður um 20% í neyslu.“
Þetta sagði Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra, spurður um túlkun sína á þeim kaupmætti sem endurspeglast í nýju neysluviðmiðunum.
Viðmiðin voru kynnt í velferðarráðuneytinu í gær en þeim er ætlað að hjálpa einstaklingum og fjölskyldum að bera saman útgjöld sín og annarra þjóðfélagsþegna.
Viðmið um útgjöld skiptast í þrjá flokka og er dæmigert viðmið fyrir fjölskyldu með tvö börn áætlað um 618.000 kr. en 292.000 fyrir einstakling.
Í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag segir Ásta Sigrún Helgadóttir, umboðsmaður skuldara, viðmiðin hafa áhrif á greiðslumat einstaklinga í skuldavanda, enda skýri þau við hvaða framfærsluviðmið beri að styðjast.