Hæstiréttur sneri í gær við dómi Héraðsdóms Reykjavíkur um að íslensk kona skilaði tveimur börnum sínum sem hún tók með sér til Íslands frá eiginmanni sínum sem búsettur er erlendis. Hafði maðurinn beitt hana ofbeldi og sent henni tölvupósta þar sem hann hótaði henni líkamsmeiðingum. Þá hefði konan verið háð manninum um framfærslu hefði hún snúið aftur með börnin til hans.
Með dómi Hæstaréttar er í fyrsta skipti stuðst við undantekningarákvæði laga um viðurkenningu og fullnustu erlendra ákvarðana um forsjá barna en þar segir að heimilt sé að synja að afhenda barn ef alvarleg hætta er á að afhending muni skaða barnið andlega eða líkamlega eða koma því á annan hátt í óbærilega stöðu.
Í dómi Hæstaréttar kemur fram að konan kynntist manninum árið 2007 og gengu þau í hjónaband ári síðar. Bjuggu þau á Íslandi til að byrja með en fluttu til útlanda árið 2009 eftir fæðingu fyrsta barns þeirra. Bjuggu þau hjá móður mannsins. Sjö mánuðum síðar sneri konan hins vegar aftur til Íslands með barnið en í byrjun árs 2010 fór hún aftur út til mannsins og eignuðust þau sitt annað barn í mars 2010.
Í lok maí þess árs kærði konan manninn til lögreglu fyrir líkamsárás og alvarlegar hótanir. Yfirgaf hún heimilið í kjölfarið ásamt börnunum tveimur. Var maðurinn handtekinn og honum meinað að umgangast konuna en hún flutti á ný til Íslands ásamt báðum börnunum. Aðstoðaði íslenska sendiráðið konuna við að komast til Íslands en hún hafði ekki fjárhagslegt bolmagn til að standa undir ferðakostnaði.
Í dómi Hæstaréttar þar sem þeirri ákvörðun er snúið við kemur fram að með aldur barnanna til hliðsjónar teljist brýnt að þau verði áfram í umsjá móður sinnar enda verulega háð henni en yngra barnið var enn á brjósti þegar dómur Héraðsdóms féll. Vegna þessa og í ljósi ofbeldishótana mannsins væri undantekningarákvæði laga um viðurkenningu og fullnustu erlendra ákvarðana um forsjá barna og afhendingu brottnuminna barna fullnægt og kröfu mannsins því hafnað.
„Það sem er merkilegt við þennan dóm er að þetta er í fyrsta sinn sem þessu undantekningarákvæði er beitt. Þetta er ákvæði sem hefur verið skýrt ofsalega þröngt og mjög erfitt að koma ákveðnum ástæðum undir það,“ segir Hjördís E. Harðardóttir, lögmaður konunnar. Ákvæði laganna séu fortakslaus ef fólk fer úr landi með börn og þurfi það þá að skila börnunum. Því sé greinilega um mjög sérstakar aðstæður að ræða í þessu máli.