Um 7.000 færri bílar fóru um Hvalfjarðargöngin í janúar sl. miðað við sama mánuð í fyrra, sem jafngildir samdrætti upp á nær 6%. Frá þessu er greint á vef Spalar.
Þar segir að varast beri að draga víðtækar ályktanir af þessu því válynd veður setji jafnan strik í svona reikning og birtist trúlega slík áhrif í umferðartölum nýliðins janúar. Svo kunni að vera að í tölunum sé einnig fólgin vísbending um að fólk dragi úr akstri vegna síhækkandi eldsneytisverðs.
Í janúar sl. fóru ríflega 115 þúsund bílar um Hvalfjarðargöng, borið saman við um 122 þúsund í janúar 2010. Í desember sl. fóru um 128 þúsund bílar um göngin.