Hóta málsókn verði ekki beðist afsökunar

Horft yfir Garðabæ.
Horft yfir Garðabæ. mbl.is/RAX

Lögmaður fjölskyldu í Garðabæ segir að dómsmál verði höfðað á hendur þeim einstaklingum sem munu ekki biðjast afsökunar á því að hafa dróttað um æru fjölskyldunnar í athugasemdakerfi á fréttavef DV og greiða miskabætur.

Í síðustu viku sendi Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður fjölskyldunnar, nokkrum einstaklingum kröfubréf vegna málsins, sem varðar nágrannaerjur í Aratúni í Garðabæ, sem fjölmiðlar fjölluðu um á síðasta ári. Þá kom m.a. fram að ofbeldi og hótunum hefði verið beitt í deilunni, sem hefði staðið yfir í nokkur ár. 

Í yfirlýsingu frá lögmanni fjölskyldunnar segir að þeir sem hafi fengið kröfubréf í hendur sé gefinn vikufrestur til að biðja fjölskyldunnar afsökunar og greiða miskabætur. Verði fólkið ekki við þeirri kröfu sé fjölskyldunni nauðugur einn kostur að höfða mál.

Þá kemur fram að einn einstaklingur hafi fallist þau málalok að biðjast afsökunar og greiða miskabætur.

Í afsökunarbeiðninni segist hann hafa skrifað ummæli í athugasemdarkerfi dv.is í mikilli geðshræringu og reiði. Hann segist hafa verið uppnuminn af þeim æsingi sem einhliða fréttaflutningur af málinu hafi skapað og verið í tilfinningalegu uppnámi. Hann hafi gert þau mistök að hafa misst stjórn á skapi sínu og rökhugsun eftir lestur fréttar DV um deiluna.

Hann viðurkennir að hafa verið mjög harðorður og hefur dregið ummælin til baka og beðist innilegrar afsökunar á þeim.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert