Gísli Tryggvason gerir þá kröfu að Jón Steinar Gunnlaugsson dómari við Hæstarétt víki sæti vegna vanhæfis við afgreiðslu á beiðni um endurupptöku, þar sem farið er fram á að dómstóllinn endurskoði ákvörðun sína um ógildingu kosninga til stjórnlagaþingsins.
Fram kemur í tilkynningu frá Gísla að þessu til rökstuðnings sé vísað til tilgreindra orða hans í viðtali í þættinum Návígi í Ríkissjónvarpi 1. febrúar sl.
Staðhæfing Hæstaréttar um að „[a]lkunna er að sú aðferð er oft viðhöfð við að stemma af fjölda kjósenda sem komið hafa í kjördeild að rituð eru nöfn kjósenda í þeirri röð sem þeir koma og greiða atkvæði,“ þyki endurupptökubeiðanda ekki studd neinum rökum. En þessi fullyrðing virðist ein af meginforsendum ákvörðunar Hæstaréttar.
Óskað hefur verið eftir því að Hæstiréttur endurskoði ákvörðun sína um ógildingu kosningar til stjórnlagaþings 27. nóvember sl. eða fyrirskipi endurtalningu kjörseðla.
Gísli hefur farið fram á endurupptöku ákvörðunar Hæstaréttar um ógildingu kosningar til þingsins, sbr. ákvörðun Hæstaréttar 25. janúar sl.
„Beiðnin er rökstudd með vísan til ákvæða stjórnsýslulaga um ófullnægjandi eða rangar upplýsingar um málsatvik, um meðalhóf og um rannsóknarreglu.
Gerð er sú aðalkrafa að kosningin verði talin gild þrátt fyrir vissa formgalla. Til vara er þess farið á leit að talningin ein verði ákvörðuð ógild og Hæstiréttur fyrirskipi endurtalningu atkvæða fyrir opnum dyrum. Áður verði öll auðkenni afmáð af kjörseðlum og skipaðir fulltrúar frambjóðenda til að vera viðstaddir talninguna, sem fari fram fyrir opnum dyrum,“ segir í tilkynningu frá Gísla.